Elvar Már Friðriksson, landsliðsmaður í körfubolta, hefur samið við litháíska úrvalsdeildarliðið BC Šiauliai en hann kemur þangað frá sænska liðinu Borås Basket.

Þetta kemur fram í frétt á facebook-síðu litháíska félagsins. BC Šiauliai hafnaði í áttunda sæti litháísku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð en liðið er þjálfað af Antanas Sireika, fyrrverandi landsliðsþjálfara litháíska karlalandsliðsins.

BC Šiauliai er þriðja erlenda félagið sem þessi uppaldi Njarðvíkingur leikur með en auk Borås Basket var hann á mála hjá franska liðinu Denain Voltaire.

Þá var hann í bandaríska háskólakörfuboltanum með LIU Brooklyn frá 2014 til 2015 og svo Barry-háskólanum frá 2015 til 2018.