Elvar lék fyrstur Íslendinga í Litáen og var valinn besti leikmaður deildarinnar strax á fyrsta ári, ári eftir að hafa verið valinn besti bakvörðurinn í Svíþjóð þar sem hann var krýndur meistari með Borås eftir að úrslitakeppnin var felld niður.

Lazarou, sem er umboðsmaður nokkurra íslenskra leikmanna, segir að þeir séu að vanda valið vel enda Elvar með mikinn byr í seglunum eftir góða frammistöðu undanfarin tvö ár.

„Það er mikill áhugi á Elvari og við erum með nokkur tilboð á borðinu frá liðum víðs vegar um Evrópu. Við erum að reyna að skoða möguleikana sem standa til boða og reynum að vanda valið vel. Það er kostur ef liðið leikur í Evrópukeppni en fyrst og fremst vill hann nýta meðbyrinn frá Litáen og taka næsta skref ferilsins,“ segir Christos í samtali við Fréttablaðið.

Litáíska deildin er talin ein af tíu sterkustu deildum í Evrópu en Njarðvíkingurinn var með 15,6 stig og gaf 7,7 stoðsend­ing­ar að meðaltali í leik í deild­inni og var valinn besti leikmaður deildarinnar, bakvörður deildarinnar, nýliði ársins og í úrvalsliðið (e. most valuable player).

„Elvar tók rökrétt skref þegar hann fór í sterkari deild á síðasta ári og upplifun okkar er sú að Šiauliai sýni því skilning að hann muni líklegast halda á ný mið í sumar. Markmiðið er að hann verði einn daginn að leika í sterkustu deildum Evrópu en um leið skiptir það Elvar miklu máli að fjölskyldu hans líði vel.“

Njarðvíkingurinn Elvar á eitt ár eftir af samningi sínum í Litáen en er með ákvæði um að hann geti keypt upp samninginn í sumar. Fyrir vikið ætti honum að vera frjálst að velja úr öðrum tilboðum.

„Elvar er með mjög hagstæðan samning og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því. Þeir vildu tveggja ára samning þegar Elvar skrifaði undir en um leið er ákvæði í samningnum um riftunarverð sem er mjög sanngjarnt fyrir báða aðila. Hann er því ekki bundinn liðinu ef það kemur inn spennandi tilboð.“

Christos, sem er með nokkra Íslendinga á sínum vegum, segir að frammistaða Elvars síðasta vetur gæti opnað nýjar dyr fyrir íslenska leikmenn til framtíðar.

„Þegar Martin Hermannsson og Haukur Helgi Pálsson fóru til Frakklands og léku frábærlega opnuðu þeir augu ýmissa deilda á íslenskum leikmönnum og núna eru komnir margir leikmenn til Spánar. Markmið mitt sem umboðsmaður er að skapa brú á milli Íslands og Evrópu fyrir íslenska körfuboltamenn og auðvelda þeim þetta ferli,“ segir Christos og heldur áfram:

„Fyrir nokkrum árum síðan var hæpið að Íslendingur hefði samið við lið í Litáen en núna hafa liðin þar og í öðrum nágrannaþjóðum séð Elvar og eru líklegri til að horfa til Íslands. Með því er Elvar kannski að ryðja veginn á nýjum slóðum fyrir Íslendinga í þessum gæðaflokki til framtíðar.“