Elvar Már Friðriksson landsliðsmaður í körfubolta hefur skrifað undir samning við sænska úrvalsdeildarfélið Borås Basket og mun hann leika með liðinu á næsta keppnistímabili.

Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Borås Basket þar sem Henrik Svensson aðalþjálfari liðsins fer fögrum orðum um Elvar Már og segir að miklar væntingar séu gerðar til hans.

Elvar Már sem lék með uppeldisfélagi sínu Njarðvík síðasta vetur er ætlað að fylla skarð Jakobs Arnar Sigurðarsonar sem leikið hefur með liðinu undanfarin ár en er á leið heim í Vesturbæinn.

Borås Basket lék til úrslita um sænska meistaratitilinn síðastliðið vor en laut þar í lægra haldi fyrir Södertälje Kings í úrslitaviðureigninnni.

Á síðustu leiktíð skoraði Elvar 23 stig að meðaltali í leikjum Njarðvíkur, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Hann hefur auk Njarðvíkur leikið með liðum LIU háskólans í Brooklyn og Barry háskólans í Miami og franska liðinu Denian Voltaire.

„Ég ræddi við nokkra íslenska leikmenn sem hafa leikið í sænsku úrvalsdeildinni síðustu ár og þeir tjáðu mér að deildin væri bæði sterk og skemmtileg. Ég er áræðinn leikstjórnandi og get bæði sótt á körfuna sjálfur og búið til færi fyrir samherja mína.

Ég kem með mikla orku og hraða í liðið og vona að ég geti hjálpað til við að halda áfram þeim góða árangri sem liðið hefur náð undanfarin ár," segir Elvar Már í samtali við heimasíðu Borås Basket.