Elvar Már Friðriksson var valinn leikmaður ársins í SSC deild bandaríska háskólaboltans annað árið í röð. Hann er fyrsti leikmaðurinn í sögu deildarinnar sem er tvisvar valinn leikmaður ársins og nýliði ársins.

Elvar leikur með Barry háskólanum sem varð meistari í SSC deildinni þriðja árið í röð. Hann er með 20,0 stig, 3,0 fráköst, 7,3 stoðsendingar og 1,5 stolinn bolta að meðaltali í leik í vetur. 

Njarðvíkingurinn hefur leikið með Barry undanfarin þrjú ár. Hann hefur átt afar góðu gengi að fagna með liðinu, tvívegis verið valinn leikmaður ársins í SSC deildinni, var nýliði ársins 2016 og er stoðsendingahæsti leikmaðurinn í sögu Barry.

Elvar var að sjálfsögðu í liði ársins í SSC deildinni, annað árið í röð. Þjálfari hans hjá Barry, Butch Estes, var valinn þjálfari ársins.