„Þetta var frábærlega upplagt hjá okkur og æðislega gott að vinna svona sterkt lið,“ sagði Elvar Örn Jónsson eftir sex marka sigur Selfoss, 32-26, á Riko Ribnica í seinni leik liðanna í 2. umferð EHF-bikars karla í handbolta í kvöld. Selfyssingar unnu einvígið, 59-53 samanlagt.

Selfyssingar voru mjög beittir í varnarleiknum og gerðu gestunum frá Slóveníu mjög erfitt fyrir.

„Vörnin var fín í heildina. Pawel [Kiepulski] var góður í markinu í fyrri hálfleik og Sölvi [Ólafsson] varði mikilvæg skot í þeim seinni,“ sagði Elvar.

Selfoss tapaði fyrri leiknum í Slóveníu, 30-27. Elvar segir að sóknarleikur Selfyssinga hafi verið mun betri í kvöld en hann var um síðustu helgi.

„Við skoruðum 32 mörk og vorum með miklu færri mistök í sókninni en úti. Mér fannst við alltaf spila okkur í færi. Við vorum í smá vandræðum þegar við vorum manni færri en það lagaðist í seinni hálfleik,“ sagði Elvar sem skoraði fimm mörk í leiknum.

Í 3. umferðinni getur Selfoss mætt risaliðum á borð við Kiel, Füchse Berlin og Magdeburg.

„Það væri gaman að fá stórt lið en núna er ég svo ánægður að hafa komist áfram. Við ætlum okkur að komast í riðlakeppnina,“ sagði Elvar að endingu.