Njarðvíkingurinn Elsa Pálsdóttir varð í dag heimsmeistari í -76 kílóa flokki kvenna í klassískum kraftlyftingum í flokki M3 inan öldunga, 60 ára og eldri.

Þetta kemur fram á vef Njarðvíkur í dag. Hún hefur áður unnið Evrópumeistaratitil og hefur bætt nokkur heimsmet það sem af er ári.

Elsa bætti heimsmetið í hnébeygju í sínum flokki þegar hún lyfti 132,5 kílóum og fylgdi því eftir með því að bæta eigið heimsmet í réttstöðulyftu þegar hún lyfti 160 kílóum.

Fyrra heimsmet hennar í réttstöðulyftu var 157,5 kíló. Þess á milli lyfti hún 60 kílóum í bekkpressu sem er jöfnun á hennar besta árangri.

Heilt yfir lyfti hún 352,5 kílóum sem er heimsmet í sameiginlegum árangri og landaði Heimsmeistaratitlinum í -76kg flokki kvenna (M3 öldunga) í klassískum kraftlyftingum.

Þá vann hún til gullverðlauna í hnébeygju og réttstöðulyftu ásamt því að taka silfurverðlaun í bekkpressu.