Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari Kristianstad í Svíþjóð, var í dag valin þjálfari ársins í árlegu kjöri Samtaka íþróttafréttamanna.

Þetta er í fyrsta sinn sem Elísabet er valin þjálfari ársins og er hún fyrsta konan til að vinna til verðlaunanna síðan þau voru fyrst veitt árið 2012.

Elísabet var valin þjálfari ársins í sænsku deildinni eftir að hafa stýrt liði Kristianstad í þriðja sætið. Árangurinn tryggir félaginu þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn á næsta ári.

Það er besti árangurinn í sögu félagsins en tvær íslenskar landsliðskonur, Sif Atladóttir og Svava Rós Guðmundsdóttir, voru samningsbundnar félaginu á síðasta ári.

Það var ekki í fyrsta sinn sem Elísbet var kosin þjálfari ársins í Svíþjóð því hún var kosin árið 2017. Sama ár var hún í þriðja sæti yfir þjálfara ársins í kjöri þjálfara ársins á Íslandi.