Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari kvennaliðs Kristianstad í knattspyrnu, verður í veikindaleyfi á næstunni en hún mun ekki þjálfa liðið þegar það hefur leik í sænsku úrvalsdeildinni í lok þessa mánaðar.

Þetta kemur fram á vefsíðunni fotbolti.net sem vitnar í Kristianstadsbladet í frétt sinni. Þar kemur fram að Elísabet glími við taugasjúkdóm sem haldi henni frá knattspyrnuvellinum eins og sakir standa.

„Þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á taugakerfið og það er ómögulegt að segja hversu lengi þetta varir í senn. Það er mjög sársaukafullt, einkum og sér í lagi þegar hann hefur áhrif á höfuðið" segir Elísabet í samtali við Kristianstadsbladet.

Johanna Rasmussen og Björn Sigurbjörnsson, aðstoðarþjálfarar Kristianstad, munu stýra liðinu á meðan Elísabet verður í leyfi vegna veikindanna. Elísabet er á leið inn í sitt 12. keppnistímabil hjá sænska liðinu.