Elín Metta Jensen sem tilkynnti í gærkvöld að hún hefði ákveðið að leggja skóna á hilluna kveður sviðið sem tíundi markahæsti leikmaður efstu deildar kvenna frá upphafi og um leið sú tíunda markahæsta með kvennalandsliðinu.

Elín Metta tilkynnti ákvörðun sína á samskiptamiðlum í gærkvöld en hún var hluti af Íslands- og bikarmeistaraliði Vals í sumar. Þá fór hún með kvennalandsliðinu á EM í Englandi.

Markahrókurinn fékk gullskóinn árið 2012, aðeins sautján ára gömul og markahæst árið 2019 ásamt Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur og Hlín Eiríksdóttur.

Alls skoraði Elín 132 mörk í 183 leikjum eða mark á 124,7 mínútna fresti á Íslandsmótinu. Henni vantaði eitt mark til að jafna Ásthildi Helgadóttur í níunda sæti yfir markahæstu leikmenn Íslandsmótsins.

Þá skoraði Elín sextán mörk fyrir kvennalandsliðið í 62 leikjum og er hún tíunda markahæsta landsliðskonan frá upphafi.

Átta af þessum sextán mörkum komu undir stjórn Jóns Þórs Haukssonar þegar hún átti góða undankeppni fyrir Evrópumótið 2021.