Ein breyting hefur verið gerð á leikmannahópi A landsliðs kvenna í fótbolta fyrir leikinn gegn Hollandi í undankeppni HM 2023 sem fram fer á Laugardalsvellinum á þriðjudaginn í næstu viku.

Elín Metta Jensen, sóknarmaður Vals, getur ekki verið með vegna meiðsla. Í hennar stað kemur framherjinn Svava Rós Guðmundsdóttir, sem leikur með franska liðinu Bordeaux, inn í hópinn.

Elín Metta var markahæsti leikmaður íslenska liðsins í undankeppni EM 2022 en hún skoraði sex mörk í átta leikjum þegar Ísland tryggði sér sæti í lokakeppni EM sem leikin verður í Englandi næsta sumar.

Leikur Íslands og Hollands verður fyrsti leikur íslenska liðsins í undankeppninni en auk þessara liða eru Tékkland, Hvíta-Rússland og Kýpur í riðlinum.