Knattspyrnukonan Elín Metta Jensen hefur skrifað undir þriggja ára samning við Val. Elín Metta hefur leikið allan sinn ferli með Val en fyrsti leikur hennar í efstu deild var árið 2010. Frá þeim tíma hefur hún leikið 159 leiki fyrir Val og skorað í þeim leikjum 110 mörk.

Elín Metta átti frábært keppnitímabil í fyrra þar sem hún skoraði 16 mörk í Pepsi Max-deildinni og var markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt liðsfélaga sínum, Hlín Eiríksdóttur, og Berglindi Björg Þorvaldsdóttur, leikmanni Breiðabliks. Þá var Elín Metta kosin besti leikmaður Pepsi Max deildarinnar.

Í upphafi þessa árs var Elín Metta orðuð við ítalska liðið AC Milan en hún sagði í kjölfarið í samtali við Fréttablaðið að hún hefði ekki fengið nein formleg tilboð að utan og væri ekki á leiðinni erlendis í atvinnumennsku á næstunni. Nú hefur hún svo fest sig til framtíðar hjá Valsliðinu.