Framherjinn Elías Már Ómarsson hefur verið seldur frá sænska liðinu Gautaborg til hollenska liðsins Excelsior. Þetta kemur fram í frétt á heimasíðu hollenska félagsins.

Elías Már gerir þriggja ára samning við hollenska liðið með möguleika á eins árs framlengingu á samningnum ef vel gengur. 

Hollenska úrvalsdeildin í knattspyrnu karla hefst um helgina, en Excelsior mætir Fortuna Sittard í fyrstu umferð deildarinnar á morgun. 

Þetta er fjórða liðið sem Elías Már leikur með, en hann lék fyrst með uppeldisfélagi sínu, Keflavík, síðan Vål­erenga í Nor­egi og skoraði svo 26 mörk í 76 leikjum fyrir Gautaborg. 

Keflvíkingurinn sem leikið hefur níu landsleiki fyrir A-landslið Íslands hittir fyrir U-21 árs landsliðsmanninn Mikael Anderson hjá hollenska liðinu.