Elfar Freyr Helgason var í dag dæmdur í þriggja leikja bann af aganefnd KSÍ í bikarnum eftir að hann reif spjald úr höndum Þorvalds Árnasonar í leik Blika á dögunum.

Elfari var vísað af velli þegar skammt var til leiksloka fyrir ljóta tæklingu.

Þorvaldur reyndi að skýla Elfari undan áreiti leikmanna Víkings sem vildu lesa Elfari pistilinn eftir tæklinguna og við það reif Elfar rauða spjaldið úr höndum Þorvalds og kastaði því í jörðina.

Þar sem leikbönn ferðast ekki á milli deildar og bikars á Íslandi mun Elfar því taka bannið út í bikarnum á næsta ári.