Alþjóðaknattspyrnusambandið úrskurðaði í dag að það væri ekkert til í ásökunum Síle um að Ekvador hafi teflt fram ólöglegum leikmanni í undankeppni HM. Síle mun áfrýja ákvörðuninni og er tilbúið að fara með málið fyrir Alþjóðaíþróttadómstólinn.

Síle hélt því fram að Byron Castillo, leikmaður Ekvadors, væri í raun fæddur í Kólumbíu og að knattspyrnusamband Ekvadors hefði aðstoðað hann að falsa fæðingargögn til að hann yrði gjaldgengur í landslið Ekvadors.

Castillo kom við sögu í sjö leikjum í undankeppninni og fór Síle fram á það að Ekvador yrði dæmdur ósigur í þeim. Það hefði þýtt að Síle myndi taka sæti Ekvadors á HM í Katar.

Síle á rétt á því að kæra niðurstöðu FIFA til áfrýjunarnefndar og staðfesti forseti knattspyrnusambands Síle, Pablo Milad að þeir myndu kæra og væru tilbúnir að fara með málið lengra.