Vanessa Bry­ant, ekkja körfu­bolta­goð­sagnarinnar Kobe Bry­ant og móðir Giönnu Bry­ant sem létust í þyrlu­slysi hlýtur 16 milljónir Banda­ríkja­dala, rúma 2,2 milljarða ís­lenskra króna í skaða­bætur eftir að myndir sem teknar voru af vett­vangi slyssins fóru í dreifingu. Málið fór fyrir dóm­stóla og nú hefur kvið­dómur komist að þessari niður­stöðu. Reu­ters greindi frá.

Þann 26. janúar árið 2020 brot­lenti þyrla í Cala­basas í Kali­forníu. Allir níu far­þegar þyrlunnar létu lífið í slysinu og þar á meðal voru Kobe Bry­ant og Gianna Bry­ant sem var að­eins 13 ára gömul.

Vanessa höfðaði mál gegn em­bætti lög­reglunnar og slökkvi­liðs Los Angeles sýslu fyrir brot á frið­helgi einka­lífs með því að hafa tekið myndir á slysstað, meðal annars af líkum þeirra sem létu lífið, og dreift þeim á­fram.

Í dóms­sal var því lýst hvernig myndunum var dreift á­fram af lög­reglu­manni sem og yfir­manni innan slökkvi­liðsins í Los Angeles, þær hafi verið „sjón­rænt slúður" í þeirra augum. Myndir sem höfðu engan opin­beran til­gang en sak­sóknari á vegum Los Angeles sýslu varði mynda­tökuna, sagði hana vera mikil­vægt tól fyrir við­bragðs­aðila til þess að miðla á­fram upp­lýsingum á tímum sem þeir töldu að þeir gætu enn bjargað manns­lífum.

Einnig var spiluð upp­taka úr öryggis­mynda­vél sem var stað­sett á bar í Los Angeles þar sem sjá mátti lög­reglu­mann á frí­vakt fá sér í glas á barnum og sýna bar­þjóninum myndirnar af vett­vangi slyssins.

Auk skaða­bótanna sem Vanessa fær í sinn hlut kvað kvið­dómurinn upp niður­stöðu sína um að Chris Chester, sem missti eigin­konu sína Söruh og 13 ára dóttur sína Payton í slysinu, fengi 15 milljónir banda­ríkja­dala í skaða­bætur.

Alls eru því skaða­bæturnar í þessu máli, komnar til af mynda­töku lög­reglu og slökkvi­liðs­manna, 31 milljón Banda­ríkja­dala, það jafngildir rúmum 4,3 milljörðum íslenskra króna.

Úr­skurðurinn var lesinn upp eftir 11 daga réttar­höld en Reu­ters segir Vanessu hafa grátið þegar að hann var lesinn upp. Hún og lög­maður hennar neituðu að tjá sig við fjöl­miðla þegar þau yfir­gáfu dóms­húsið.

Kobe Bry­ant lék með Los Angeles Lakers allan sinn feril í NBA deildinni, hann varð fimm sinnum NBA-meistari með liði sínu. 

Hann var 12 sinnum valinn einn af bestu varnar­mönnum NBA-deildarinnar, var kjörinn mikil­vægasti leik­maður deildarinnar vorið 2008 og tíma­bilin þar á eftir mikil­væga­stur í úr­slita­keppninni. Bry­ant sem hóf NBA feril sinn árið 1996 og lagði síðan skóna á hilluna árið 2016 er fjórði stiga­hæsti leik­maður í sögu deildarinnar.