Það var af nægu að taka í Íþróttavikunni með Benna Bó sem var á dagskrá Hringbrautar á föstudagskvöld. Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs og Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans hjá Símanum voru gestir þáttarins.

Þar var að sjálfsögðu fjallað um endurkomu Heimis Guðjónssonar til FH en boðað var til kynningarfundar á vegum FH þar sem múgur og margmenni safnaðist saman að fá staðfest eitt verst geymda leyndarmálið í íslenska boltanum í vikunni.

,,Skemmtileg nýjung sem maður upplifði þarna," sagði Hörður Snævar Jónsson, íþróttastjóri Torgs sem var í Kaplakrika þegar Heimir var kynntur á nýjan leik. ,,Þjálfarinn mætti bara til leiks undir dynjandi lófaklappi, öl í glasi á þriðjudagskvöldi. Ég átti von á kannski svona 60 manns en það var troðið út úr dyrum.“

Heimir sé mættur heim og menn hafi trú á því að kraftaverkið geti endurtekið sig með því að fá hann aftur í Kaplakrika.

,,Stemmningin þarna var þannig að maður skynjaði von hjá fólki."

Ekki mátti greina eins mikla von hjá Tómasi Þór líkt og stuðningsmönnum FH hvað ráðninguna á Heimi varðar.

,,Réttur eða ekki réttur, ég veit það ekki. Auðvitað er hann hrikalega farsæll þjálfari, það segir sig sjálft og hann á ævintýralegan þátt í því að FH er í raun sigursælasta og stærsta félagið á þessari öld. Bara sem leikmaður, aðstoðarþjálfari og svo þjálfari.

Maður getur hlaðið lofi á hann endalaust og skilur pælinguna hjá forráðamönnum FH. Þeim finnst eins og einhver kúltúr hafi tapast hjá félaginu. Þá eru leikirnir, ansi margir, farnir að tapast.“

FH sé farið að tapa fleiri leikjum en þeir vinna á einu tímabili.

,,Sem er mjög skrítið miðað við hvernig uppgangur félagsins hefur verið frá aldamótum. Það er ekki langt síðan Heimir varð Íslandsmeistari með öðru liði, hjá Val þar sem hann pakkaði mótinu saman en Besta deildin hefur breyst ansi mikið á rosalega skömmum tíma út af tveimur öðrum þjálfurum í þessari deild."

Tómas Þór á þar við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Íslandsmeistara Breiðabliks og Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings Reykjavíkur, ríkjandi bikarmeistara.

,,Þeir hafa breytt fótboltanum, sett önnur viðmið og sömuleiðis breytt því hvernig leikmannahópar eru settir saman upp á það að gera hvernig þú spilar fótbolta og hvað þú vilt gera ef þú vilt vinna eitthvað."

Hlutirnir hafi ekki gengið upp hjá Val á lokametrum hans hjá félaginu.

,,Þá er ekkert sérstaklega langt síðan FH reyndi þessa sömu leið og þeir eru að fara núna. Ólafur Jóhannesson var þarna fyrir korteri, það er maðurinn sem hóf þetta allt saman eftir að Logi hafði lagt grunninn, það gekk ekki heldur.

Miðað við hvernig leikmannahópurinn er settur saman veit ég ekki alveg af hverju FH ætti einhvern veginn að höfrungahoppa í hæstu röð á núll einni."

Nánari umræðu um FH og Heimi Guðjónsson má sjá hér fyrir neðan.