Skipuleggjendur World Championship mótsins í League of Legends sem hófst í Laugardalshöll í gær munu ekki veita íslenskum fjölmiðlum aðgengi að mótinu á meðan því stendur næsta mánuðinn.

Þetta kom fram í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins í gær.

Gríðarlegur áhugi er á mótinu víðsvegar um heiminn en milljónir fylgdust með fyrsta leikjunum í gær á streymisveitunni Twitch sem er aðeins einn af áhorfsvettvöngum mótsins.

Næstu daga fer fram undankeppni þar sem tíu lið reyna að komast að í riðlakeppninni en búið er að leigja Laugardalshöll og tvö hótel á meðan mótinu stendur.

Rafíþróttaliðin eru búin að taka Hilton hótelið á leigu þar sem knattspyrnulandslið Íslands hafa dvalið undanfarin ár á meðan landsliðsverkefni standa yfir.

Staðfesti starfsmaður KSÍ í samtali við 433.is að Riot Games, framleiðandi League of Legends, hefði keypt upp allt hótelið á meðan verkefninu stæði.

Landsliðið dvelur því á Icelandair Hotel Reykjavík Natura sem var hótel landsliðsins um árabil áður en þeir fluttust yfir á Hilton sem er með útsýni yfir Laugardalsvöll.

Mótið stendur yfir næsta mánuðinn þar sem 22 bestu lið heims í League of Legends berjast upp á titilinn og um leið fimm hundruð þúsund dollara verðlaunafé fyrir fyrsta sætið.