Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins, telur að ákvörðun um að enska landsliðið myndi sniðganga HM í Katar síðar á þessu ári myndi ekki hafa nein á mannréttindamál þar í landi.

Enska landsliðið er að huga að undirbúningi fyrir lokakeppni HM sem fer fram í olíuríkinu Katar síðar á þessu ári. Það verður í fyrsta sinn sem HM fer fram í Mið-Austurlöndunum og í fyrsta sinn sem HM fer fram að vetri til.

Í aðdraganda mótsins hafa mannréttindasamtök og nokkrir háttsettir aðilar innan knattspyrnuheimsins gagnrýnt ákvörðunina að halda mótið í Katar enda hafa fjölmargir erlendir verkamenn látið lífið við að reisa leikvangana í Katar.

Southgate sagði að leikmenn enska landsliðsins og þjálfarateymið hefðu rætt hvaða aðgerða væri hægt að grípa til en að ákvörðunin um að sniðganga mótið hafi aldrei komið til greina.

„Ég veit ekki hverju það ætti að skila. Það yrði auðvitað stórfrétt, en mótið myndi fara fram þrátt fyrir það. Staðreyndin er sú, að stærsta vandamálið er hvað átti sér stað við byggingu leikvanganna og það er því miður ekkert hægt að gera í því,“ sagði Southgate og hélt áfram:

„Það er búið að liggja fyrir í átta ár að mótið fer fram í Katar, snýst þetta um andúð gegn landinu sem slíku? Hagsmunir okkar eru samofnir eins og sést á öllum fjárfestingum Katars í Englandi. Þetta er erfitt og flókið mál.“