Kerala Blasters er enn ósigrað eftir að Guðjón Baldvinsson hóf að spila með liðinu.

Kerala Blasters vann 0-1 útisigur á North East Utd í indversku ofurdeildinni í dag. Wes Brown, fyrrverandi leikmaður Manchester United, skoraði eina mark leiksins.

Guðjón var í byrjunarliði Kerala Blasters og lék allan leikinn. Garðbæingurinn hefur leikið fjóra leiki fyrir Kerala Blasters. Þrír þeirra hafa unnist og einn endað með jafntefli. Guðjón hefur skorað eitt mark fyrir liðið.

Kerala Blasters er í 5. sæti indversku deildarinnar með 24 stig, einu stigi á eftir Jamshedpur sem er í 4. sætinu. Fjögur efstu liðin fara í úrslitakeppni um indverska meistaratitilinn.

David James er þjálfari Kerala Blasters og honum til aðstoðar er Hermann Hreiðarsson.

Guðjón leikur með Kerala Blasters út mars en þá snýr hann aftur til Stjörnunnar.