Ekki er talið að Íslendingar hafi verið hluti af slysinu sem varð við EM-torgið í Manchester í gær þegar að strætisvagn ók á biðskýli við Piccadilly Gardens með þeim afleiðingum að kona á sextugsaldri lét lífið. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Fjöldi Íslendinga voru samankomnir við EM-torgið í gær en íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu hóf leik á Evrópumótinu í gær með sínum fyrsta leik í riðlakeppninni mótsins gegn Belgíu.

,,Eins og sakir standa eru engar vísbendingar um að Íslendingar hafi lent í þessu umrædda slysi,“ segir Sveinn H. Guðmarsson, fjölmiðlafulltrúi Utanríkisráðuneytisins í samtali við Fréttablaðið og bætir við að enginn hafi sett í sig í samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í kjölfar slyssins.

Í frétt Manchester Evening Standard segja sjónarvottar frá því að strætisvagninn hafi farið á ferð upp á gangstétt og endað á biðskýlinu.

Auk konunnar sem lést slösuðust tveir einstaklingar, þar af annar alvarlega. Lögreglan í Greater Manchester biðlar til sjónarvotta sem kunna að búa yfir myndefni í tengslum við slysið að gefa sig fram þar sem það gæti hjálpað til við rannsókn málsins.