Gary Lineker, um­sjónar­manni Match of the Day á BBC og fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­manni Eng­lands í knatt­spyrnu, verður ekki refsað af BBC fyrir að hafa gagn­rýnt stefnu breskra stjórn­valda í mál­efnu flótta­fólks á sam­fé­lags­miðlinum Twitter á dögunum.

Málið hefur vakið tölu­verða at­hygli á Bret­lands­eyjum enda er Lineker, sem var á sínum tíma afar fram­bæri­legur knatt­spyrnu­maður og marka­hrókur mikill, and­lit í­þrótta­um­fjöllunar BBC.

Í færslu, sem að Lineker birti á Twitter, deildi hann mynd­bandi þar sem að innan­ríkis­ráð­herra Bret­lands, Suella Bra­ver­man, kynnti til leiks frum­varp sitt er sneri að „ó­lög­legum fólks­flutningum“ yfir Ermar­sundið.

Í mynd­bandinu var gefið til kynna að breska ríkið væri að eyða næstum 7 milljónum punda á dag í gistingu fyrir það fólk sem kæmi ó­lög­lega yfir Ermar­sundið til landsins. Frum­varpinu er ætlað að gefa breska ríkinu heimild til þess að hneppa þetta fólk í varðhald við komuna til landsins og senda það til baka þaðan sem það kom, ef það er talið öruggt land.

„Guð minn al­máttugur, þetta er skelfi­legt,“ skrifaði Lineker í færslunni þar sem hann deildi mynd­bandi innan­ríkis­ráð­herrans og sagði frum­varpið fela í sér ó­mælda grimmd.

„Hér er ekkert stórt inn­streymi flótta­fólks,“ bætti Lineker við í færslu á Twitter. „Við tökum við miklu færri flótta­mönnum en allar aðrar stærri Evrópu­þjóðir. Þetta er bara ó­trú­lega grimm stefna sem er beint að við­kvæmasta fólkinu, stefna sem var notuð í Þýska­landi fyrir nokkrum ára­tugum síðan. Og svo er það ég sem er ekki í lagi?“

Í kjölfarið tóku þingmenn Íhaldsflokksins í Bretlandi á rás og kröfðust þess að Lineker yrði sagt upp störfum. Nú er hins vegar ljóst að afleiðingarnar fyrir hann verða ekki meira en smá tiltal.