Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, segir að útsendari á vegum íslenska liðsins hafi mætt á einn leik hjá hollenska liðinu á EM en þau séu fyrst og fremst að einblína á Evrópumótið.

Þetta kom fram þegar Þorsteinn var spurður hvort að þau væru með útsendara á sínum vegum á leikjum Hollands á mótinu.

Ísland mætir Belarús og svo Hollandi í lokaumferðinni í undankeppni HM í haust.

Með sigri á Belarús færu Stelpurnar okkar til Hollands með pálmann í höndunum og þyrftu aðeins jafntefli til að komast í lokakeppni HM í fyrsta sinn.

„Við höfum tekið einn leik með Hollandi núna en erum svo sem ekki mikið að spá í því. Við fáum allar upptökur af þessu, þannig það er ekkert stórmál,“ sagði Þorsteinn í samtali við Fréttablaðið.