„Ég hef ekki mikinn áhuga á NFL og eiginlega skil íþróttina ekki alveg ef ég á að vera hreinskilinn. En þau hafa oft talað um að við ættum að fara að kíkja yfir til Kansas en tímasetningin er ekki alveg rétt. Við erum með lítinn strák og annað á leiðinni þannig að við erum bara róleg og tökum Super Bowl í sjónvarpinu,“ segir Sigurbjartur Sigurjónsson sem hýsti Patrick Mahomes, leikstjórnanda Kansas City Chiefs, í nokkra daga sumarið 2017. Í útsendingu Stöðvar 2 Sport var Mahomes oftar en ekki nefndur tengdasonur Mosfellsbæjar án þess að það væri útskýrt mikið meir.

Kærasta Mahomes, Brittany Matthews, kom til landsins það ár til að spila með Aftureldingu í 2. deildinni og bjó hjá Sigurbjarti og Sigrúnu Gunndísi en Sigurbjartur er formaður meistaraflokksráðs kvenna í félaginu. Þá var Mahomes nýbúinn að semja við Kansas og hafði fengið 10 milljónir dollara fyrir það eitt að skrifa undir. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og er Mahomes af mörgum talinn vera einn besti leikstjórnandi deildarinnar. Næsti samningur hans mun telja ansi marga milljarða.

„Þegar hann kom til okkar var hann nýbúinn að skrifa undir hjá Kansas. En hann var þá og er trúlega enn með einhverja sem sjá um peningamálin og þeir voru ekkert búnir að láta hann fá einhvern pening. Kærasta hans þurfti að fá fyrirfram greitt fyrsta mánuðinn þannig að þegar hann kom þá héldum við að þau ættu engan pening og væru nýkomin úr háskóla.

Þegar þau vildu fara út að borða þá benti ég þeim á frekar ódýra staði og þau fengu lánaðan bílinn okkar til að komast þangað. Svo komu þau til baka og hann svaf hérna í sófanum. Hann var svo stór og mikill að hann passaði varla í rúmið þannig að hann gisti í sófanum.

Hann var með hnausþykka möppu af leikkerfum og öðru sem hann þurfti að læra utan að áður en hann mætti aftur til Kansas. Hann var hérna í einhverja átta eða 10 daga. Spilaði Playstation og skoðaði svo land og þjóð með kærustunni sinni. Kíkti að Varmá og fylgdist með henni æfa.“

View this post on Instagram

🇮🇸🇮🇸🌋

A post shared by Patrick Mahomes II (@patrickmahomes) on

View this post on Instagram

Blue lagoon 🌋 ✔️

A post shared by Patrick Mahomes II (@patrickmahomes) on

Sigurbjartur segir að Sigrún og Brittany séu í fínu sambandi og það hafi oftar en ekki komið til tals að þau skelli sér til Kansas og sjái leik. „Það er alveg möguleiki. Þau töluðu um að völlurinn væri skemmtilegur að heimsækja. Við þurfum einhvern tímann að gefa okkur tíma í það.“

Þau Sigurbjartur og Sigrún eiga von á sínu öðru barni í maí og því hentar tímasetningin þeim ekki, að rúlla vestur um haf til að sjá Super Bowl og sitja í boði sjálfs Patricks Mahomes.