Stjórnvöld í Katar tilkynntu í samráði við skipuleggjendur Heimsmeistaramótsins sóttvarnarreglur sem verða í gildi fyrir HM í knattspyrnu sem fer fram í Doha í vetur. Ekki verður krafist að einstaklingar séu bólusettir en gerð verður krafa um PCR-próf.

Þá verða allir einstaklingar átján ára og eldri að vera með snjallsímaforritið, Ehteraz sem segir til um smit einstaklinga. Forritið hefur verið í notkun í langan tíma í Katar.

Einstaklingar þurfa að framvísa PCR prófi þar sem niðurstöðurnar eru innan við 48 tíma gamlar eða taka hraðpróf hjá viðurkenndum heilbrigðisstarfsmanni innan við 24 tímum fyrir ferðalagið til Katar.

Það verður hins vegar ekki gerð krafa um bólusetningu eða fyrra smit eins og var í gildi í Katar fyrr á þessu ári.

Grímuskylda verður í lestarkerfinu sem tengir saman alla átta leikvellina.