„Þetta er búinn að vera mjög lærdómsríkur tími og það er mjög gaman að búa í landi þar sem áhuginn fyrir körfubolta er jafn mikill og hann er hérna í Litháen. Það hefur hins vegar verið nokkuð mikið rót á leikmannahópi liðsins sem hefur komið niður á úrslitunum,“ segir Elvar Már Friðriksson í samtali við Fréttablaðið um fyrstu mánuðina sína hjá Siauliai.

Þrátt fyrir að liðinu hafi ekki gengið vel hefur Elvar Már staðið fyrir sínu, en hann er þriðji stigahæsti leikmaður litháísku úrvalsdeildarinnar með rúmlega 16 stig að meðaltali í fyrstu tíu leikjum vetrarins, sá stoðsendingahæsti með rúmar sjö stoðsendingar og framlagshæsti með tæplega 21 framlagspunkt.

„Leikmenn hafa komið og farið frá okkur en við náðum að mynda gott lið í nóvember og náðum að vinna í þeim leikjum sem við spiluðum í þeim mánuði, tvo deildarleiki og einn bikarleik. Það hafa reyndar orðið fleiri breytingar á liðinu síðan þá en vonandi náum við að stilla saman strengina eftir áramót og klára tímabilið með sóma,“ segir Elvar Már, sem var valinn leikmaður nóvembermánaðarins í deildinni.

„Siauliai er lið sem er vant því að vera í toppbaráttu og það er krafa um betri árangur en liðið hefur verið að sýna. Það er gott að vera í þannig umhverfi að ég finn vel fyrir því að fólkið í kringum félagið er ekki sátt við árangurinn og leitar leiða til þess að bæta hann.

Þó svo að við séum bara með tvo sigurleiki þá erum við bara einum sigurleik frá sæti sem veitir okkur þátttökurétt í úrslitakeppni deildarinnar. Það er spiluð fjórföld umferð hérna þannig að það er nóg eftir. Vonandi náum við að rétta úr kútnum þegar við byrjum að spila aftur,“ segir leikstjórnandinn, sem er í sinni annarri sóttkví á leiktíðinni eins og sakir standa.

„Ég er kominn með góða reynslu af því að vera í sóttkví þar sem ég hef verið í einangrun í 20 af síðustu 30 dögum um það bil. Það sem er verra við þessa sóttkví er að fjölskyldan er farin heim þannig að þetta er mun einmanalegra í þetta skiptið. Ég hef ekki séð mikið af borginni hérna en þekki íbúðina mína út og inn og íþróttasalinn þar sem við æfum.

Það eru frekar strangar reglur hérna í Litháen hvað sóttkvína varðar og ég má til dæmis ekki fara út með ruslið og það er nánast allt lokað. Heimsendingarþjónustan á nauðsynjavörum er hins vegar í toppstandi þannig að ég er í fínum málum,“ segir Njarðvíkingurinn léttur.

„Fyrir utan það að hafa eytt fullmiklum tíma í sóttkví og gengi liðsins, þá er ég sáttur við dvölina hérna í Litháen. Þetta er mun sterkari deild en í Svíþjóð og það er gaman að takast á við meiri áskorun. Fimm sterkustu lið deildarinnar eru virkilega sterk og þú þarft að vera á tánum í öllum leikjum, annars er þér refsað.

Leikmannahóparnir eru mun sterkari hjá liðunum þannig að það eru fleiri sem leggja í púkkið þegar kemur að stigaskorun og öðrum tölfræðiþáttum leiksins. Þetta er líka öðruvísi körfubolti en ég er vanur. Hér er spilaður hægari leikur og taktískari leikur en í þeim deildum þar sem ég hef spilað og margir hávaxnir leikmenn og öflugir leikmenn í hverju liði.

Ég hef þurft að aðlagast því, get ekki sótt jafn mikið sjálfur að körfunni og ég hef áður gert og þarf að finna aðrar leiðir til þess að skora. Það er bara jákvætt að kynnast öðruvísi leikstílum,“ segir Elvar Már, aðspurður um hvað hann hafi lært á meðan hann hefur leikið í þessu mikla körfuboltalandi.