For­múlu 1 lið Mercedes mun ekki leita að söku­dólgum vegna vondrar byrjunar liðsins á yfir­standandi For­múlu 1 tíma­bili. Frá þessu er greint í yfir­lýsingu liðsins til stuðnings­manna sinna. Mercedes bindur vonir við upp­færslur á bíl sínum en fram undan er önnur keppnis­helgi tíma­bilsins.

Mercedes virðist langt á eftir keppi­nautum sínum í ljósi úr­slita fyrstu keppnis­helgarinnar í Bar­ein þar sem Lewis Hamilton endaði í 5. sæti og Geor­ge Rus­sell í því þriðja. Í kjöl­far keppnis­helgarinnar gagn­rýndi Lewis Hamilton, sjö­faldi heims­meistarinn, liðið og sagðist hafa viðrað á­hyggjur sínar varðandi bíl Mercedes fyrir löngu síðan.

Fár­viðrið í kringum Mercedes eftir fyrstu keppnis­helgina hefur verið mikið, liðið hefur nú séð sig til­neytt til að gefa út yfir­lýsingu til stuðnings­manna sinna þar sem segir að vonir séu bundnar við bjartari tíma.

Fréttablaðið/GettyImages

Daily Mail hefur fyrir því heimildir að krísu­fundur hafi verið boðaður í her­búðum liðsins í síðustu viku, tækni­stjóranum Mike Eliott hafi þar verið gefnir afar­kostir.

Í yfir­lýsingu Mercedes segist liðið hins vegar ekki ætla að leita að söku­dólgum.

„Niður­staða keppnis­helgarinnar í Bar­ein sveið. Hún særði okkur öll vegna þess að við förum inn í hvert einasta tíma­bil með það að mark­miði að berjast um heims­meistara­titil. Þetta særði liðs­menn okkar sem hafa unnið hörðum höndum að því að þróa bílinn sem hefur ekki staðist væntingar hingað til.“

Það sem blasi við liðinu núna er staða sem engin hafi viljað að upp myndi koma.

„En þetta er raun­veru­leikinn.“

Nú þurfi að horfast í augu við hann og finna leiðir til þess að taka skref fram á við.

„Við munum ekki panikka eða taka á­kvarðanir í fljót­færni. Í því kast­ljósi sem For­múla 1 er, tekur það ekki langan tíma fyrir fólk að benda á mögu­lega söku­dólga. Þið hins vegar þekkið okkur betur en það.“

Nú þegar sé farin af stað þróun á upp­færslum fyrir bíl liðsins fyrir komandi keppnis­helgar.