Lokatölur á Goodison Park í gær var 4-1 sigur Liverpool sem er sem stendur í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir fjórtán umferðir. Everton situr í 14. sæti með 15 stig og hefur ekki unnið leik í deildinni síðan 25.september síðastliðinn.

Það vakti upp mikla furðu fyrir tímabilið þegar tilkynnt var um ráðningu Rafa Benítez, fyrrum knattspyrnustjóra Liverpool í stjórastólinn hjá Everton. Pressan var á Benitez strax fyrir fyrsta leik Everton á tímabilinu sökum þess og honum hefur hingað til mistekist að skila góðum úrslitum heim á Goodison Park.

Ítalski blaðamaðurinn Rudy Galetti sagði í gær í færslu á Twitter að boðað hefði verið til neyðarfundar hjá stjórn Everton í gærkvöldi eftir leik liðsins við Liverpool og þar má fastlega gera ráð fyrir því að framtíð Benitez sem knattspyrnustjóri hjá liðinu hafi verið rædd.

Benitez segist hins vegar ekki vera hræddur um starf sitt. ,,Nei. Ég er reyndur í þessum bransa og ég sé að liðið er að gefa allt sitt í verkefnið. Skuldbindingin er til staðra hjá leikmönnunum... ,,Nú þurfa allir að vera vonsviknir því við töpuðum nágrannaslagnum. Við töpuðum af því að við gerðum mistök gegn einu besta liði deildarinnar," sagði Benitez í viðtali eftir tap gærkvöldsins.