Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, segist eiga von á erfiðum leik gegn Tékklandi í næsta verkefni kvennalandsliðsins í leik sem gæti farið langt með að ráða úrslitum í baráttunni um annað sæti í riðlinum.

Ísland mætir Tékklandi og Kýpur í næsta landsleikjahléi í undankeppni HM 2023 en Ísland tapaði fyrsta leik riðilsins gegn Hollandi á dögunum.

„Tékkneska liðið er að stærstum hluta byggt á leikmönnum úr Sparta Prag og Slavia Prague og leikmönnum sem með leika með góðum liðum eins og markmanni PSG. Kýpur er aftur á móti nýr andstæðingur sem við eigum og ætlum okkur að vinna. Þetta eru leikir sem skipta miklu máli í baráttunni um annað sæti riðilsins og gott verkefni til að halda þeirri vegferð áfram.“

Þorsteinn var ekki tilbúinn að kalla þetta úrslitaleik hvort að Ísland ætti möguleika á öðru sæti riðilsins

„Þetta eru gríðarlega mikilvægir leikir. Það er ekki hægt að horfa framhjá því. Hvort að þetta verður úrslitaleikur kemur í ljós í lok riðlakeppninnar.“

Þorsteinn var spurður hvað mætti fara betur frá síðasta leik gegn Hollandi.

„Við þurfum að þora að vera framar á vellinum. Í seinni hálfleik gegn Hollendingum féll liðið of langt til baka. Ég vill að liðið þori að vera með boltann, að vera hátt uppi með liðið og stýra leikjum.“

Hann segir ekki mikið skilja að lið Íslands og Tékklands á blaði eins og sást síðast þegar liðin mættust í undankeppni HM 2019.

„Að mörgu leyti eru þessi lið á svipuðum stað. Við erum í 16. sæti heimslistans og Tékkar í 27. sæti. Það er ekki mikið þarna á milli. Í síðustu undankeppni var fyrri leikur liðanna stuttu eftir að Ísland vann frækinn sigur á Þjóðverjum og náðu ekki að fylgja því eftir í Tékklandi. Ég hef ekki skoðað seinni leikinn vel en man eftir því að Ísland fékk tækifæri til að klára leikinn. Það þarf að nýta tækifærin sem mistókst þann daginn.“