Róbert Geir Gíslason, framkvæmdarstjóri HSÍ, segir að það sé ekki grundvöllur fyrir því að fresta leik Íslands og Danmerkur á Evrópumótinu í handbolta sem fer fram í kvöld í ljósi tíðinda af fimm smitum í íslenska hópnum.

Róbert sagði að reglurnar væru einfaldar að ef lið væru með fimmtán leikfæra leikmenn væri ekkert til fyrirstöðu að leikurinn færi fram.

„Við erum ennþá með fimmtán leikhæfa leikmenn, þannig umræða um frestun hefur ekki átt sér stað og leikurinn fer fram í kvöld.“

Ísland er nú með fimmtán leikmenn sem eru ekki smitaðir en Róbert tók undir að þetta væri enginn óskaundirbúningur.

„Strákarnir eru einstaklega samheldnir og vel undirbúnir, við gefum allt í leikinn í kvöld en svona tíðindi trufla alltaf undirbúninginn fyrir leiki.“

Róbert sagði að von væri á tilkynningu síðar í dag þar sem leikmönnum yrði bætt við hóp Íslands fyrir næstu leiki í ljósi tíðinda dagsins.

„Við erum að funda í dag og eigum von á niðurstöðu í dag. Ég geri ráð fyrir því að við reynum að breikka hópinn fyrir laugardaginn.“