Þar sem að áform um nýja þjóðarleikvanga Íslendinga eru enn sögð vera á byrjunarstigi er ekki gert ráð fyrir þeim í fjármálaætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag. Jafnframt segir í áætluninni að horft er til þess að á næstu árum rísi þjóðarleikvangar.

Í fjármálaáætluninni segir að á undanförnum misserum ýmis stærri fjárfestingarverkefni verið í skoðun og undirbúningi, þar með talið verkefni á borð við byggingu þjóðarleikvanga í íþróttum.

,,Enn sem komið er eru þessi áform á byrjunarstigi og endanlegt umfang framkvæmdanna liggur ekki fyrir. Í ljósi þeirrar óvissu þykir ekki tímabært að gera ráð fyrir þeim í þessari áætlun," segir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag.

Í forsendum áætlunarinnar er gert ráð fyrir tilteknu óráðstöfuðu fjárfestingarsvigrúmi meðal annars til að mæta óvissu í áætlanagerð en einnig til að tryggja tiltekið fjárfestingastig ríkisins á tímabilinu eftir því sem stærri og tímabundin fjárfestingaverkefni klárast. Þetta svigrúm er sagt vaxa smám saman yfir tíma og verður orðið allnokkuð undir lok tímabilsins og gæti það ef til vill rúmað einhver stærri fjárfestingarverkefni á síðari hluta tímabilsins.

Í kaflanum Íþrótta- og æskulýðsmál í fjármálaáætluninni eru helstu verkefni málaflokksins skilgreind. Þar er meðal annars fjallað um þjóðarleikvanga Íslands. ,,Aðstaða ýmissa íþróttagreina sem standa framarlega í alþjóðlegri keppni er orðin gömul og uppfyllir ekki alþjóðlega staðla. Stjórnvöld vinna með sveitarfélögum og íþróttahreyfingunni að uppbyggingu þjóðarleikvanga í samræmi við nýja reglugerð um þjóðarleikvanga. Horft er til þess að á næstu árum rísi þjóðarleikvangar fyrir inniíþróttagreinar, knattspyrnu og frjálsíþróttir eins og segir í stjórnarsáttmála."

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, sagði í þættinum 433.is á Hringbraut í síðasta mánuði að sambandið geti ekki beðið endalaust eftir svörum og grænu ljósi á byggingu nýs þjóðarleikvangs.

,,Ég vona að þessi mál gangi upp en við getum ekki beðið að eilífu og þess vegna hef ég bara sagt það hreint og beint út að ef þetta lýtur út fyrir að fara vera áframhaldandi störukeppni þá er það bara okkar skylda að skoða aðra möguleika," sagði Vanda Sigurgeirsdóttir

Bæði Laugardalsvöllur, heimili íslensku landsliðana í knattspyrnu sem og Laugardalshöllin, sem hefur meðal annars hýst landslið Íslands í handbolta og körfubolta, eru á undanþágum frá sínum yfirsamböndum.