Frá því að Holland skoraði seinna mark leiksins á 65. mínútu í 2-0 sigri á Íslandi síðastliðið haust hefur íslenska liðið haldið hreinu í 565 mínútur í undankeppninni.

Aðeins Spánn (0) og England (0) hafa fengið á sig færri mörk í undankeppinni en Ísland sem hefur fengið á sig tvö mörk í sjö leikjum.

Stelpurnar okkar héldu hreinu í báðum leikjunum gegn Kýpur, Belarús og Tékklandi og eru því rúmlega níu klukkustundir síðan Ísland fékk á sig mark í undankeppninni.

Íslenska kvennalandsliðið mætir því hollenska í undankeppni HM 2023 í Utrecht í dag. Jafntefli eða sigur þýðir að Ísland fer áfram í lokakeppni HM í kvennaflokki í fyrsta sinn.

Ljóst er að andstæðingur dagsins, hollenska liðið, er gríðarlega vel mannað enda lék Holland til úrslita á síðasta HM og varð Evrópumeistari árið 2017.