Sara Björk er á sínu síðasta ári hjá þýska liðinu Wolfsburg, en eftir að hafa leikið með liðinu í fjögur keppnistímabil, hefur hún ákveðið að yfirgefa herbúðir liðsins þegar yfirstandandi leiktíð lýkur. Á miðvikudaginn varð ljóst að hún mun kveðja liðið sem fjórfaldur Þýskalandsmeistari.

Sara segir að þrátt fyrir að frábærlega hafi gengið innan vallar, þá hafi tíminn hjá Wolfsburg verið allt í senn skemmtilegur, viðburðaríkur og erfiður. Ýmislegt hafi gengið á hjá sér og hún hafi lent í ofþjálfun líkamlega og andlegum erfiðleikum á þeim tíma sem hún hefur verið hjá þýska liðinu.

„Það er mjög mikilvægt fyrir mig persónulega að tímabilið hafi verið klárað og að við höfum náð að landa þýska meistaratitlinum á mínu síðasta ári hjá liðinu. Það hefði verið glatað ef tímabilinu hefði verið hætt og ég hefði ekki náð að kveðja liðið almennilega. Ég finn fyrir miklum létti yfir að titillinn sé í höfn og nú er bara að klára leiktíðina með bikarmeistaratitli og góðum árangri í Meistaradeildinni,“ segir Sara Björk í samtali við Fréttablaðið.

„Þessi fjögur ár hjá Wolfsburg hafa verið gríðarlega lærdómsrík. Eftir standa auðvitað titlarnir sem við höfum unnið og ég er stolt af, en að baki þeim er gríðarleg mikil vinna. Þrátt fyrir sigursæl fjögur ár þá hefur tíminn ekki verið eintómur dans á rósum og fólk kannski áttar sig ekki á því hvað það þarf að leggja mikið á sig til þess að ná þeim árangri sem við höfum náð,“ segir landsliðsfyrirliðinn.

„Það má í raun segja að fyrsta leiktíðin hafi verið hvort tveggja í senn, sú skemmtilegasta og um leið erfiðasta, líkamlega og andlega. Það var allt nýtt og gríðarlega spennandi fyrir mér hjá Wolfsburg. Þá gekk mér persónulega og liðinu vel, sem var góð tilfinning. Ég tók hins vegar lítið frí eftir að ég kom frá Rosengård og eftir fyrsta tímabilið fór ég beint á Evrópumótið sumarið 2017,“ segir þessi öflugi leikmaður.

Lenti á vegg andlega eftir að Evrópumótinu lauk árið 2017

„Eftir EM lenti ég bara á vegg andlega séð. Ég átti í persónulegum erfiðleikum sem ég hafði ýtt til hliðar í töluverðan tíma og ekki dílað við. Ég var að koma mér inn í liðið hjá Wolfsburg og vildi ekki sýna á mér neinn veikleika þar. Hlutverk mitt sem leiðtogi íslenska landsliðsins varð svo til þess að ég setti ekki mína hluti í fyrsta sæti. Þá fann ég fyrir miklum kvíða og fékk kvíðaköst. Ég leitaði þá til sálfræðings sem hjálpaði mér mikið. Ég náði bata og leið vel í nokkurn tíma, þangað til ég fann fyrir niðursveiflu aftur.

Þá notaði ég þau trix sem sálfræðingurinn kenndi mér og náði mér á strik á nýjan leik. Þessi tími kenndi mér mikið og það sem skiptir mig mestu máli er að setja ekki vandamálin ofan í skúffu, heldur tækla þau um leið og þau láta á sér kræla. Þetta hefur mótað mig sem manneskju,“ segir Sara Björk.

„Tíminn hjá Wolfsburg hefur verið frábær og það verður mjög skrýtið að fara héðan. Ég er svona fyrst núna að ná að leiða hugann almennilega að því að það séu kaflaskil fram undan. Mér finnst þetta hins vegar réttur tímapunktur til þess að breyta til og fara annað þar sem ég þarf að sanna mig upp á nýtt.

Æfingakúlturinn hér í Þýskalandi hefur tekið sinn toll af líkamanum og það verður gott að komast í annað umhverfi. Ég hef bætt mig umtalsvert tæknilega og taktískt séð hérna en það er hollt fyrir mig að fá nýja áskorun. Ég mun sakna leikmannanna sem ég hef spilað með og þá kannski sérstaklega Pernille Harder sem ég hef tengst sterkum böndum.

Af þeim leikmönnum sem ég hef spilað með hjá Wolfsburg og standa upp úr, má svo nefna Caroline Hansen, Ewu Pajor, Alexöndru Popp og Nillu Fischer,“ segir miðjumaðurinn sem hefur verið orðuð við Lyon og Barcelona