KKÍ vonast til að gengið verði frá ráðningu á næsta landsliðsþjálfara hjá karlalandsliðinu í körfubolta á næstu vikum.

Samningur Craig Pedersen við KKÍ rennur út um áramótin og kemur enn til greina að hann haldi áfram störfum með karlalandsliðið.

Fyrir mánuði síðan sagðist Hannes Jónsson,formaður KKÍ, eiga von á því að ákvörðun yrði tekin fyrir lok október en Hannes sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að ákveðið hefði verið að taka lengri tíma í ákvörðunina.

Þá sagðist Hannes eiga von á niðurstöðu í mál karlalandsliðsins á næstu vikum, fyrir lok nóvember.

Næsta verkefni karlalandsliðsins er forkeppni fyrir undankeppni HM 2023 sem hefst í febrúar næstkomandi. Ísland er í riðli með Slóvakíu, Kósovó og Lúxemborg í riðlinum þar sem tvö efstu liðin fara áfram.