Það varð ljóst á mið­viku­dag að Totten­ham myndi ekki vinna titil á þessari leik­tíð, fimm­tánda árið í röð. Þá féll liðið úr leik í 16-liða úr­slitum Meistara­deildar Evrópu eftir leik gegn AC Milan. Ítalirnir unnu fyrri leikinn 1-0 og nægði því marka­laust jafn­tefli í Lundúnum á mið­viku­dag liðinu til að komast í 8-liða úr­slit.

„Þetta var allt and­laust. Það skipti engu máli hvar það var. Stuðnings­menn og leik­menn, ég hef aldrei séð svona litla stemningu yfir neinu. Þetta var allt ömur­legt í alla staði og til skammar,“ segir Hjálmar Örn Jóhanns­son, einn harðasti Totten­ham-stuðnings­maður landsins, um frammi­stöðu sinna manna gegn Milan.

Tottenham féll úr leik í Meistaradeild Evrópu á dögunum
Fréttablaðið/GettyImages

Komið gott hjá Conte

Antonio Conte er við stjórn­völinn hjá Totten­ham. Liðið situr í fjórða sæti ensku úr­vals­deildarinnar en er dottið úr öllum öðrum keppnum. Undir stjórn Conte þykir það spila leiðin­legan fót­bolta, þrátt fyrir gæða­leik­menn í mörgum stöðum.

„Eins mikið og maður var bjart­sýnn fyrst þegar Conte tók við, þetta væri maður sem gæti snúið við leikjum sem við værum vanir að tapa, hefur þetta bara koðnað niður í ein­hverja vit­leysu. Ég veit ekki lengur hvað er að,“ segir Hjálmar.

Í síðustu viku féll Totten­ham úr leik í enska bikarnum með tapi gegn B-deildar­liðinu Sheffi­eld United.

„Ég var reiðari yfir tapinu gegn Sheffi­eld United heldur en eftir leikinn við Milan. Þá sauð á mér. Þú átt bara að mæta með sterkasta liðið þitt og ef menn eru svona þreyttir er hægt að taka þá út af í hálf­leik.“

Antonio Conter er knattspyrnustjóri Chelsea
GettyImages

Conte tók við sem stjóri Totten­ham haustið 2021 en samningur hans rennur út í sumar.

„Ég er einn af þeim sem verja þessa þjálfara fram í rauðan dauðann. Þeir eru oft að fá leik­menn sem þeir vilja ekki endi­lega.

Ég vona alltaf að menn séu fag­legir í því sem þeir gera og vilji klára tíma­bilið með reisn. En því miður held ég að það eina rétta í stöðunni sé að láta hann fjúka strax og ná í nýjan.“

Vill meiri létt­leika

Hjálmar telur að Totten­ham þurfi að hverfa aftur til þess tíma þegar liðið lék skemmti­legan fót­bolta, þó svo að það skili ekki endi­lega titlum í massa­vís.

„Þannig var þetta á níunda og tíunda ára­tugnum. Samt voru bikar­úr­slit og alls konar.“

Hann nefnir að hann væri til í að ráða Michael Carrick sem næsta knatt­spyrnu­stjóra, en hann hefur vakið at­hygli með Midd­les­brough á tíma­bilinu.

„Kannski þurfa stuðnings­menn Totten­ham að fara að átta sig á því að við erum bara með lið sem er að berjast um fjórða til sjötta sæti. Að við séum ekki að fara að berjast um neina titla.

Michael Carrick spilar fal­legan bolta og ég held að hann sé al­gjör­lega málið.“

Carrick, sem hefur tengingar við Tottenham, hefur verið að gera flotta hluti með Middlesborough
Fréttablaðið/GettyImages

Myndi skilja Kane vel

Það er ekki til að hugga stuðnings­menn Totten­ham að ná­grannarnir og erki­fjendurnir, Arsenal, eru að gera stór­kost­lega hluti. Liðið er á toppi ensku úr­vals­deildarinnar með fimm stiga for­skot.

„Það sýnir mér að það er ljós við enda ganganna. Ef Arsenal, sem klúðraði þessu al­gjör­lega í fyrra, getur snúið þessu svona við á einu tíma­bili sýnir það mér að það er allt hægt.

Ég verð líka að hrósa stjórninni hjá Arsenal fyrir að hafa stutt við bakið á Mikel Arteta. Eitt­hvað sáu þeir.“

Stjórn Totten­ham, með Daniel Levy í farar­broddi, segir Hjálmar að hugsi meira um að búa til peninga.

„Honum er skít­sama um ein­hver úr­slit, þannig séð. Hann vill auð­vitað að liðið sé í Meistara­deildinni en gerir samt alltaf allt á eins ó­dýran hátt og hægt er. Það er ekki alltaf hægt að skeina sér með eld­hús­þurrku. Stundum þarftu bara að fara og kaupa lamba-klósett­pappír.“

Harry Kane, stjarna Totten­ham og dáðasti leik­maður liðsins, verður samnings­laus eftir næstu leik­tíð. Hann hefur verið orðaður við brott­för.

„Ég myndi ekki vera neitt fúll út í hann. Ég held að allir stuðnings­menn Totten­ham myndu skilja hann 100%. Það gæti líka bara orðið gott fyrir klúbbinn, alla aðila. Stundum er það svo­leiðis,“ segir skemmti­krafturinn og sam­fé­lags­miðla­stjarnan Hjálmar Örn Jóhanns­son.

Harry Kane, fyrirliði Tottenham
Fréttablaðið/GettyImages