Þýski bílaframleiðandinn Porsche hefur ákveðið að hætta frekari viðræðum um aðkomu Porsche að bílum Red Bull í Formúlu 1.

Í yfirlýsingu Porsche kemur fram að Red Bull hafi ekki verið tilbúið að gefa eftir fimmtíu prósent eignarhlutfall í liðinu og það hafi reynst örlagavaldurinn.

Viðræður hafa staðið yfir undanfarna mánuði og hefur Audi, annað merki innan Volkswagen bílasamsteypunnar, tryggt sér samstarf á sama tíma við lið Sauber.

Porsche bætir enn fremur við að bílaframleiðandinn sé ekki af baki dottinn og að forráðamenn Porsche séu enn með það til skoðunar að koma að rekstri liðs í Formúlu 1.