Íslenska karlalandsliðið í handbolta heldur í vikunni til Búdapest þar sem liðið mun leika riðil sinn í lokakeppni Evrópumótsins en það eru Portúgalir sem eru fyrstu andstæðingar íslenska liðsins á mótinu.

Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Íslands, segir mikla tilhlökkun innan hópsins að fara út og takast á við krefjandi en skemmtileg verkefni sem fram undan eru.

„Það er ekkert launungarmál að undirbúningurinn hefur litast af takmörkunum vegna kórónaveirunnar en við höfum reynt að gera gott úr stöðunni. Það var tekin sú ákvörðun að fara með hópinn í svokallaða vinnustaðasóttkví og freista þess ekki að finna vináttuleik í stað þeirra við áttum að spila við Litá. Ég held og vona að það hafi verið rétt ákvörðun.

Það hefur ekki enn greinst smit síðan við komum saman hér heima og það eru jákvæð tíðindi. Vonandi verður það þannig áfram. Strákarnir hafa verið mjög einbeittir og faglegir á æfingum og öllum undirbúningi. Við spiluðum innbyrðisleik um helgina og reyndum að hafa eins líkan keppnisleik og mögulegt er.

Við erum klárir í slaginn og ég finn mikinn eldmóð í leikmönnum að standa sig vel. Fókusinn er á fyrsta leik þrátt fyrir að við þjálfarateymið séum komnir lengra inn í mótið í undirbúningnum," segir Guðmundur Þórður um komandi mót.

Hlutverk Ágústar Þórs stækkaði vegna fjarveru Gunnars

„Gunnar Magnússon greindist með Covid áður en hópurinn hittist á Íslandi og hann er enn í einangrun. Við það stækkaði hlutverk Ágústar Þórs Jóhannssonar á æfingum en til stóð að hann væri með aðaláhersluna á markverði liðsins. Gunni fylgist með úr fjarska og er að vinna klippivinnu og annað þeim dúr.

Við til að mynda tökum upp allar æfingar og greinum þær samdægurs með leikmönnum og þar vinnur þjálfarateymið allt saman í því að undirbúa þá videofundi.

Það eru allir leikmenn liðsins klárir í slaginn en við vitum auðvitað að leikmenn eins og Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason og Sigvaldi Björn Guðjónsson hafa verið að glíma við meiðsli í aðdraganda þessa móts. Það eru hins vegar allir leikfærir þegar við mætum Portúgal," segir þjálfarinn.

Fyrsti leikur íslenska liðsins á mótinu er gegn Portúgal á föstudaginn kemur en auk þessara liða eru Ungverjar og Hollendingar, sem leika undir stjórn Erlings Richardssonar, í riðli Íslands.