KSÍ er ekki með riftunarákvæði né klásúlu um endurskoðun samnings Arnars Þórs Viðarssonar, landsliðsþjálfara karlalandsliðsins, þegar Þjóðardeildinni er lokið.

Þetta kom fram í svari Vöndu Sigurgeirsdóttur við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Það eru ekki slíkar klásúlur í samningi Arnars,“ sagði Vanda.

Hann mun því stýra liðinu út næsta ár að hið minnsta, út undankeppni Evrópumótsins 2024.

Víða þekkist að það sé ákvæði í samningum um að hægt sé að endurskoða samninga á ákveðnum tímapunktum.

Þá staðfesti Vanda við Fréttablaðið fyrr í dag að KSÍ ræddi við Heimi Hallgrímsson í sumar.

KSÍ nýtti sér slíkt endurskoðunarákvæði í samningi við Eið Smára Guðjohnsen til að semja við hann um starfslok sem annar af landsliðsþjálfurum karlalandsliðsins á síðasta ári.