Héraðssamband Vestfirðinga varð til við sameiningu Íþróttabandalags Ísafjarðar og Héraðssambands Vestur-Ísfirðinga árið 2000. Virk aðildarfélög sambandsins eru 16 talsins og eru félagsmenn á fjórða þúsund.

Karen Gísladóttir, nefndarmaður í íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar, lagði fram fyrirspurn á 226. fundi nefndarinnar þann 21. september síðastliðinn. Fyrirspurninni beindi Karen að Héraðssambandi Vestfirðinga (HSV), rauði þráðurinn í fyrirspurn Karenar var sá hvort að ofbeldismal hefði komið inn á borð sambandsins.

Svar frá HSV barst síðan á síðasta fundi íþrótta- og tómstundanefndar þann 20. október síðastliðinn. ,,Það hefur ekkert ofbeldismál verið tilkynnt til HSV. Stjórn hefur fundað sérstaklega vegna umræðna í samfélaginu og fór sérstaklega yfir viðbragðsáætlun," segir í svari Dagnýjar Finnbjörnsdóttur, framkvæmdarstjóra HSV.

Dagný segir að HSV fordæmi hverskyns ofbeldi. ,,HSV er með skýra afstöðu gagnvart ofbeldismálum af hvaða tagi sem er, það er ekki liðið innan okkar raða. Allir eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu. Einelti, kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi, í hvaða mynd sem það birtist, má ekki viðgangast. Það er á ábyrgð okkar allra að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun."