Ísland er í D-riðli með Frakklandi, Ítalíu og Belgíu á Evrópumótinu í knattspyrnu sem fer fram næsta sumar.

Ísland hefur unnið öll þrjú liðin einu sinni en sigurhlutfall kvennalandsliðsins gegn þessum liðum er misjafnt.

Stelpurnar okkar hafa unnið einn leik af ellefu gegn Frökkum og tapað níu leikjum en gegn Ítölum hefur Ísland unnið einn leik af sjö, þremur lokið með jafntefli og þremur með ítölskum sigri.

Að lokum hefur Ísland mætt Belgíu þrisvar og unnið einn þeirra, síðast þegar liðin mættust í Algarve árið 2016.

Þetta er sjöunda Evrópumót franska landsliðsins en Ítalir eru á leiðinni á sitt tólfta Evrópumót og hafa aðeins misst af einu móti (1995) frá upphafi.

Stelpurnar okkar eru á leiðinni á sitt fjórða Evrópumót í röð en Belgía er á leiðinni á sitt annað mót í röð eftir að hafa þreytt frumraun sína í Hollandi árið 2017.