Flestir eru sammála um að Castillion hafi verið klókur og krækt sér viljandi í spjaldið og eigi því skilið að fá lengra bann en aðeins þennan eina leik. Það er þó ekkert hægt að gera.

Í íslenskum knattspyrnulögum er nefnilega ekkert til að vísa í varðandi viljandi gult spjald. Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, hefur væntanlega skrifað í sína skýrslu um brotið og þar með ljúki málinu. Þetta er samdóma álit þeirra sem Fréttablaðið leitaði til og þekkja vel til knattspyrnulaganna.

Framkvæmdarstjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, getur vísað málum til aga- og úrskurðarnefndar KSÍ, en þar sem ekkert ákvæði er í lögunum um hvað eigi að vitna í þá er ansi langsótt að mati flestra viðmælenda Fréttablaðsins að vísa máli Castillions til nefndarinnar.

„KSÍ þarf að setja þetta inn í regluverkið og það er bara handvömm að ekki sé búið að því,“ segir einn lögfróður maður.

Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ, segir að dómarar séu almennt lítið að velta fyrir sér hvað hver leikmaður sé með mörg spjöld á bakinu þegar leikurinn sé blásinn á.

„Skilaboðin mín til minna dómara eru, dæmdu bara leikinn og yfirleitt er það alveg nóg. Við dæmum eftir okkar samvisku og tökum þær ákvarðanir sem við teljum vera réttar hverju sinni.“