Breiðablik mætir Istanbul Basaksehir í þriðju umferð undankeppni Sambandsdeildar UEFA annað kvöld. Um fyrri leik liðanna er að ræða og fer hann fram á Kópavogsvelli. Sá síðari fer fram eftir átta daga í Tyrklandi. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag.

„Það er gríðarleg tilhlökkun, tækifæri fyrir liðið til að máta sig við lið í hæsta gæðaflokki í evrópskri knattspyrnu. Þetta verður alvöru próf,“ sagði Óskar um verkefnið.

„Ég held að þetta sé margfalt sterkara lið en þau sem við höfum spilað við hingað til og spiluðum við í fyrra. Árangur liðsins í Evrópu undanfarin ár segir sína sögu, þeir voru í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og eru búnir að styrkja sig verulega fyrir þetta tímabil, eru með marga öfluga leikmenn sem eru búnir að spila með góðum liðum og á hæsta stigi. Þetta eru ekki einhverjir latir lúxusleikmenn sem nenna ekki að hlaupa eða hafa boltann.“

Óskar var spurður út í það hvar væri möguleiki á að særa Tyrkina.

„Veikleikarnir liggja í því að þeir eru að koma í umhverfi sem þeir eru ekki vanir. Þeir eru að koma á lítinn völl með gervigrasi. Veðrið verður vonandi ekki upp á sitt besta, svona klassískt júlí-veður á Íslandi. En veikleikar þeirra liggja frekar í styrkleikum okkar. Við þurfum að ná að spila á okkur styrkleikum og okkar allra besta leik. Við þurfum að ná að pressa þá, vera hugrakkir. Við þurfum að passa að verða ekki litlir í okkur og fara inn í okkur. Það er ekkert annað en okkar allra besti leikur, bæði sóknar- og varnarlega, sem gerir það að verkum að við fáum eitthvað út úr þessum leik.“

Basaksehir er að klára sitt undirbúningstímabil á meðan Breiðablik er á mikilli siglingu hér heima. Óskar telur að það gæti hjálpað eitthvað, þó það muni ekki breyta miklu.

„Auðvitað hjálpar það eitthvað. Við erum í góðu formi og það er ágætis taktur á okkur. Deildin hjá þeim byrjar á sunnudag svo þeir eru á lokametrunum í sínum undirbúningi, svo mér finnst alveg líklegt að formið sé fínt á þeim og ágætis bragur á þeim. En ég held það vinni allavega ekki á móti að það er búið að ganga ágætlega.“