Þegar undankeppni HM 2022 er að verða hálfnuð er staða Strákanna okkar í J-riðli ekki góð, í aðdraganda leiks Íslands og Norður-Makedóníu. Allt annað en sigur á sunnudaginn þýðir að vonir Íslands um að komast á lokakeppni HM aðra keppnina í röð eru litlar sem engar fyrir heimsókn Þýskalands. Um leið getur Ísland blásið lífi í veika von um annað sætið, með sigri og hagstæðum úrslitum annars staðar.
Það er ekki mikill tími sem gefst til endurhæfingar frá leiknum gegn Rúmeníu, en leikurinn á sunnudag er tæplega sjötíu klukkutímum eftir að leik Íslands og Rúmeníu lauk á fimmtudaginn. Það gæti hins vegar reynst Íslandi vel að andstæðingarnir fengu sama tíma milli leikja, en þurftu þar að auki að ferðast frá Skopje eftir leik gegn Armeníu á fimmtudaginn.
Þetta gæti orðið ákveðinn tímamótaleikur hjá tveimur aðilum íslenska landsliðsins. Nafnarnir Birkir Bjarnason og Birkir Már Sævarsson gætu leikið 100. leik sinn fyrir karlalandsliðið á sunnudaginn en aðeins Rúnar Kristinsson hefur náð hundrað leikjum eða meira fyrir karlalandsliðið.