Sir Lewis Hamilton, sjö­faldur heims­meistari öku­mann í For­múlu 1 og öku­maður Mercedes hefur eitt tæki­færi í við­bót til þess að halda ó­trú­legu gengi sínu gangandi um komandi keppnis­helgi í Abu Dhabi sem verður jafn­framt síðasta keppnis­helgi tíma­bilsins.

Hamilton steig sín fyrstu skref sem öku­maður í For­múlu 1 árið 2007 og það tók hann að­eins sex keppnir að vinna sína fyrstu keppni í móta­röðinni. Síðan þá hefur hann unnið keppni á öllum þeim tíma­bilum sem hann hefur tekið þátt í móta­röðinni.

Hins vegar er um for­dæma­lausa tíma að ræða fyrir þennan sigur­sæla Breta á yfir­standandi tíma­bili því honum hefur ekki tekist að vinna keppni á tíma­bilinu. Framan af var bíll Mercedes ekki nægi­lega góður til þess að berjast við lið eins og

Red Bull Ra­cing og Ferrari um sigra. Þó hefur liðið verið að sækja í sig veðrið að undan­förnu og kristallast það í sigri liðsins í keppni síðustu helgar sem fram fór á Interla­gos brautinni í Brasilíu.

Hins vegar var það Geor­ge Rus­sell, liðs­fé­lagi Hamilton sem vann þá keppni og því hefur Hamilton að­eins eitt tæki­færi til við­bótar, í Abu Dhabi um komandi helgi til þess að halda metinu gangandi.

Að­eins sjö­faldi heims­meistarinn Michael Schumacher, fyrrum öku­maður Ferrari getur státað sig af sam­bæri­legu af­reki er varðar fjölda tíma­bila sem hann hefur unnið keppnir á. Frá árunum 1992-2006 náði Schumacher að vinna að minnsta kosti eina keppni á tíma­bili eða fimm­tán ár í röð.