Lewis Hamilton, bar sigur úr býtum í kappakstri helgarinn sem fór fram í Katar og náði að saxa á forskot Verstappen, sem endaði í öðru sæti. Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn segir keppnishelgina hafa verið öðruvísi en við var búist.

,,Mjög áhugaverð helgi að baki. Brautin virtist bjóða upp á meiri möguleika en búist var við. Fyrst og fremst er það samt hraði Hamilton sem að stendur upp úr," sagði Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið í dag.

Hamilton ræsti fremstur og hélt forystunni frá byrjun og til enda á meðan að Verstappen, sem endaði í öðru sæti tímatökunnar, þurfti að taka á sig fimm sæta refsingu fyrir að hafa hundsað gul flögg á brautinni.

,,Þetta var klúður hjá Verstappen þarna í tímatökunum og fá þessa refsingu á sig og það í raun gefur Hamilton þessa keppni. Fyrir fram var það í rauninni bara ræsingin sem maður sá fyrir sér að Verstappen hefði geta svarað Hamilton," sagði Kristján Einar í samtali við Fréttablaðið.

Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn
Mynd: Kristján Einar

Verstappen náði hins vegar að lágmarka skaðann og kom sterkur til baka, endaði í öðru sæti keppninnar.

,,Fyrstu hringirnir hjá Max Verstappen í keppni helgarinnar voru algjör snilld. Hann var hins vegar ekki með nægan hraða til þess að sækja af einhverju viti á Hamilton. Skaðaminnkunin var hins vegar algjör hjá honum, hann gerði allt sem hann gat."

Aðeins tvær keppnir eru eftir á tímabilinu. Sú fyrri fer fram í Sádí-Arabíu á glænýrri braut sem hefur aldrei verið keppt á áður. ,,Við erum að fara á braut þar sem liðin geta ekki skoðað gögn frá keppnum fyrri ára. Þetta er ný braut sem hefur ekki verið keppt á áður í Formúlu 1, hún er ekki einu sinni tilbúin núna þegar að við erum að tala saman."

Kristján bendir síðan á ás sem Mercedes hefur í ermi sinni. ,,Það er mjög áhugavert að Mercedes spöruðu mótorinn sem þeir notuðu í Brasilíu, sem er ferskasti mótorinn þeirra, fyrir þessa keppni og settu í mótor sem þeir höfðu notað fyrir Brasilíu. Þannig að mótorinn sem að fer í bílinn fyrir kappaksturinn í Sádi-Arabíu, sem er ein hraðasta braut sem við höfum séð, er ferski mótorinn sem var notaður í Brasilíu."

,,Eins og staðan er núna lítur þetta skuggalega vel út fyrir Hamilton í aðdraganda næstu keppni," segir Kristján Einar Kristjánsson, umsjónarmaður Formúlunnar á Viaplay og hlaðvarpsþáttarins Pitturinn. En hann segir þó að ekki megi vanmeta Max Verstappenn sem leiðir heimsmeistarakeppnina og hefur keyrt frábærlega á tímabilinu.

,,Það sannast enn og aftur að Formúlan er besta íþrótt í heimi," voru lokaorð Kristjáns Einars við blaðamann Fréttablaðsins.