Strákarnir okkar í karlalandsliðinu í körfubolta geta brotið blað í sögu íslensks körfubolta með því að komast inn á lokakeppni HM í fyrsta sinn um helgina.
Liðsins bíður hreinn úrslitaleikur, gegn Georgíu í Tblisi, þar sem Strákarnir okkar þurfa að vinna með fjórum stigum og miðinn er þeirra. Með því yrði Ísland 62. þjóðin sem kemst í lokakeppnina og fámennasta þjóðin til þessa.
„Tilfinningin er frábær. Það eru forréttindi að vera í þessari stöðu. Þetta er staða sem enginn bjóst við, að við værum að fara í hreinan úrslitaleik um sæti á HM. Nú verður allt lagt í það að láta drauminn rætast því við erum ansi nálægt,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Vegferð karlalandsliðsins að þessari stöðu hefur verið ströng. Eftir vonbrigði í síðustu undankeppni fyrir EM hefur Ísland farið í gegn um þrjár undankeppnir og unnið lönd eins og Ítalíu og Úkraínu. Þrátt fyrir að hafa tapað þremur leikjum í röð, þar á meðal gegn Georgíu á heimavelli, er Ísland með örlögin í eigin höndum fyrir leikinn í Tblisi