Valur fær skoska liðið Glasgow City í heimsókn á Origo-völlinn að Hlíðarenda í dag í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna. Liðið sem ber sigur úr býtum í þessum leik fer í 32 liða úrslit keppninnar en þar bíða meðal annars ríkjandi meistarar, Lyon, með Söru Björk Gunnarsdóttur innanborðs, Glódís Perla Viggósdóttir og samherjar hennar hjá Rosengård ásamt sterkustu liðum Evrópu.

Valskonur hafa síðan á mánudaginn í síðustu viku verið á undanþágu frá gildandi sóttvarnareglum og fengið að æfa á hefðbundinn hátt fyrir en það er mun betri undirbúningur en Valsliðið fékk fyrir sigurleikinn gegn HJK Helsinki í síðustu umferð undankeppninnar þar sem liðið náði einungis tveimur æfingum saman í aðdraganda leiksins eftir fjögurra vikna æfingabann.

Andstæðingur Vals í þessum leik er töluvert sterkari en Eiður Ben Eiríksson, annar þjálfara Vals, segir eftirvæntingu ríkja í herbúðum Hlíðarendaliðsins fyrir komandi leik: „Staðan á er mjög góð á þessum tímapunkti. Það eru allir leikmenn liðsins heilir og klárir í verkefnið. Við höfum náð að æfa vel fyrir leikinn og farið vel yfir andstæðinginn.

Við erum að fara að mæta mun betra liði en í síðustu umferð, það er líka erfiðara að lesa í þær af tveimur ástæðum. Þær eru mjög sveigjanlegar í taktík og uppsetningu milli leikja og svo eru þær nýlega byrjaðar á sínu tímabili og eru að spila sig saman. Þjálfari þeirra hefur verið að spila á mörgum leikmönnum í fyrstu leikjum liðsins á nýhafinni leiktíð hjá þeim,“ segir Eiður Ben í samtali við Fréttablaðið.