Thomas Bach, forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar, segir að íþróttafólk sem lýsi yfir stuðningi við innrás Rússa í Úkraínu, verði refsað.

Bach lýsti yfir stuðningi við ákvörðun Alþjóðasundsambandsins og Alþjóðafimleikasambandsins sem dæmdu iðkendur sína í bann á dögunum.

„Við fylgjumst vandlega með því hverjir lýsa yfir stuðningi við stríðið í Úkraínu og munum refsa einstaklingum sem gera slíkt. Við vitum um leið að það getur orðið að fangelsisvist í Rússlandi að mótmæla stríðsrekstri og þá er þögn besta vopnið. Grunngildi okkar eru friður.“

Fimleikakappinn Ivan Kuliak fékk eins árs bann fyrir að mætt til leiks á fimleikamót með bókstafinn Z á keppnisbúningi sínum og með því sýnt stuðning við innrás Rússa í Úkraínu.

Þá var Evgeny Rylov, gullverðlaunahafi í sundi á Ólympíuleikunum dæmdur í níu mánaða bann fyrir að taka þátt í hernaðarsýningu Vladimír Pútíns.