Breiðablik og Valur mætast í úrslitaleik Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli í dag. Leikurinn hefst klukkan 16 á Laugardalsvelli.

„Það er tilhlökkun fyrir leiknum. Þetta er leikur sem allir vilja komast í, stærsti leikur ársins,“ segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, við Fréttablaðið í aðdraganda leiksins.

Mikilvægir leikmenn á borð við Öglu Maríu Albertsdóttur og fyrirliðann Ástu Eir Árnadóttur vantar í lið Blika í leiknum vegna meiðsla. „Þessir leikmenn eru nálægt hópnum, á æfingasvæðinu og gefa af sér, styðja við þá sem eru að fara að taka þátt í þessu. Við vinnum þetta sem ein heild,“ segir Ási.

Breiðablik er ríkjandi meistari, eftir að hafa unnið úrslitaleik gegn Þrótti Reykjavík í fyrra.

„Það setur ekki meiri pressu á okkur. Þetta er eins mikill pressuleikur og hann verður. Liðið og klúbburinn er búið að fara nokkrum sinnum í þennan leik á undanförnum árum og það vonandi hjálpar okkur aðeins að nálgast verkefnið.“

Breiðablik er nýkomið úr Evrópuverkefni, en liðið datt út í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu gegn Rosenborg á dögunum.

„Síðustu dagar hafa farið í að safna kröftum, ná áttum og tjasla öllu saman. Rútínuna fyrir leik reynir maður að hafa sem líkasta venjulegum leikdegi,“ segir Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks í knattspyrnu.

Leikurinn hefst klukkan 16 í dag á Laugardalsvelli. Það er hægt að nálgast miða á Tix.is.

Smelltu hér fyrir miða á svæði Breiðabliks

Smelltu hér fyrir miða á svæði Vals