Robert Sarver, eigandi Phoenix Suns í NBA og Phoenix Mercury í WNBA, hefur verið settur í eins árs bann af NBA og sektaður um tíu milljónir Bandaríkjadala vegna óviðeigandi hátterni á vinnustað.

Rannsakendur í málinu komust að þeirri niðurstöðu að Sarver hafi hegðað sér með óviðeigandi hætti í garð kvenkyns starfsmanna sinna, til að mynda með kynferðislega tengdum ummælum. Þá er hann sakaður um rasisma í fimm tilfellum.

„Það er erfitt að hlusta á lýsingarnar af hegðuninni. Þetta eru mikil vonbrigði,“ segir Adam Silver, yfirmaður NBA, meðal annars í yfirlýsingu.

„Við teljum að útkoma rannsóknarinnar sé rétt þegar allt er tekið inn í myndina. Þetta var alhliða rannsókn á átján ára tímabili. Við viljum að staðallinn sé hár á vinnustöðum tengdum NBA,“ segir Silver, sem jafnframt biðst afsökunar á málinu fyrir hönd körfuknattleikssambandsins.

Bann Sarver þýðir að hann má ekki koma nálægt starfi karla- eða kvennaliðs síns, sama í hvaða formi það er.

Á meðan banninu stendur yfir þarf Sarver jafnframt að fara á námskeið, þar sem hann lærir um virðingu og viðeigandi hegðun á vinnustað.

Auk þess að skoða hegðun Sarver fóru rannsakendur einnig yfir hegðun starfsmanna Suns almennt. Þar komu upp mál sem ekki var hægt að tengja beint við eigandann. Sneru þau til að mynda að óviðeigandi hegðun gagnvart kvenkyns starfsfólki, rasisma og fleiru.

Flestir starfsmenn sem tengdust þeim málum starfa ekki lengur hjá Suns.