Hörður Snævar Jónsson
Þriðjudagur 30. ágúst 2022
08.51 GMT

„Ég taldi að mínum tíma væri betur varið í annað, þetta krefst vinnu til að vera í góðu standi bæði and­lega og líkam­lega. Ég vil gera þetta al­menni­lega, ég er ekki með sama hungrið til að gefa mig allan í þetta og þá er alveg eins gott að eyða tímanum í eitt­hvað annað,“ segir Brynjar Þór Björns­son sem greindi frá á­kvörðun sinni um liðna helgi. Brynjar er 34 ára gamall og var ungur mættur á sjónar­sviðið.

KR gengur í gegnum kyn­slóða­skipti sem hjálpaði Brynjari að taka á­kvörðun sína, ó­lík­legt er að þetta stór­veldi í ís­lenskum körfu­bolta berjist um Ís­lands­meistara­titil í vetur. „Það hjálpar til, mjög mikið í raun. Liðið er ansi ungt, leik­menn sem áttu að vera þarna 28-29 ára eru hættir eða farnir annað. Það vantar þessa kyn­slóð til að vera í topp­bar­áttu, það er erfitt að vera kominn í lið sem er að meiri­hluta ungir leik­menn sem eiga eftir að þroskast. Það vantaði leik­menn í kringum mig sem eru á svipuðum stað í lífinu,“ segir Brynjar um á­kvörðun sína.

For­réttinda­ferill

Brynjar segist upp­lifa það sem for­réttindi að hafa unnið alla þessa titla en einnig að hafa prófað að fara í at­vinnu­mennsku. „Þetta er al­gjör for­réttinda­ferill að upp­lifa alla þessa sigur­göngu, vera með í öllum þessum upp­gangi sem var í KR. Svo eru ævin­týri eins og í Sví­þjóð árið 2011 og svo með Tinda­stóli árið 2018. Þetta er búið að vera ein­tóm skemmtun allur þessi ferill, árangurinn er frá­bær. Það er gaman að hafa upp­lifað þetta allt saman.

2007-titillinn stendur mikið upp úr, það er sá fyrsti. Þetta var sá eini þar sem við áttum ekki að geta unnið, við vinnum Njarð­vík þrátt fyrir að vera undir nánast alla þá seríu. Það skapaðist múg­æsingur í líkingu við það sem gerðist hjá Tinda­stóli í úr­slita­keppninni núna. Miðjan (stuðnings­sveit KR) mætti þarna á körfu­bolta­leiki í fyrsta skipti og það var ó­gleyman­legt.“
Ó­trú­leg stemming myndaðist í kringum KR-liðið á þessum árum og þær minningar sitja eftir hjá Brynjari. „Það var ó­gleyman­legt að koma í þessa stóru leiki og stúkan var full þegar þú varst að hita upp. Það var geggjað að labba inn og sjá alla vini sína vera mætta og fá sér að borða löngu fyrir leik. Það er ó­gleyman­legt í fjórða leik árið 2007 gegn Njarð­vík þegar það lak niður sviti með öllum veggjum, loft­ræstingin hafði ekki undan. Það er frá­bært að hafa upp­lifað þetta, allur Vestur­bærinn og allir í raun voru að fylgjast með. Það eru for­réttindi að hafa upp­lifað alla þessa úr­slita­leiki, það eru fáir sem fái að upp­lifa þessi augna­blik.“

Vildi hætta Í KR

Þegar í­þrótta­fólk tekur á­kvörðun um að hætta keppni kemur oft tóma­rúm í líf þeirra sem Brynjar er vel með­vitaður um. „Það tala allir um það, þú færð ekki þessa keppni í öðru. Það er erfitt að búa hana til í þessu dag­lega lífi, en það er meiri tími til að huga að ein­hverju öðru. Maður getur prófað eitt­hvað nýtt, það fer rosa­legur tími í þetta. Maður verður að vera sáttur við að hafa upp­lifað þetta frekar en að horfa í eitt­hvað annað.“

Eldri KR-ingar hafa á undan­förnum árum endað feril sinn í Val og nægir þar að nefna Jón Arnór Stefáns­son og Pa­vel Er­molinskij. Brynjar í­hugaði ekki að spila þar undir stjórn Finns Freys Stefáns­sonar fyrr­verandi þjálfara KR. „Ég hef ekki leitt hugann að því, maður er fyrst og fremst KR-ingur. Mér finnst réttast að hætta í KR og vera sáttur við það. Ég skildi alveg þegar Pa­vel fór í Val, hann þurfti á­skorun. Það er sárara að sjá Kristófer Acox á há­tindi ferilsins þarna hinum megin. Þetta voru sex ár í röð hjá okkur sem við vinnum, það er meira en að segja það að halda í hungrið. Ég skildi alveg Pa­vel að fara en það er erfiðara að sjá Kristófer í Vals­­treyju að hampa titlum, hann er enn ungur og ferskur.“

Hið dag­lega líf hefur tekið við hjá Brynjari sem ræðir þó í­þróttir daginn út og inn. „Ég byrjaði að vinna hjá DHL í janúar og vinn með miklum í­þrótta­mönnum, fyrr­verandi körfu­bolta- og fót­bolta­mönnum. Það er mikið spjallað um í­þróttir, það er gott að vera kominn hingað inn,“ segir Brynjar sáttur við á­kvörðun sína.

Athugasemdir